Innlent

Stærsta réttarhelgin

Réttirnar eru þjóðhátíð Árnesinga, segir landbúnaðarráðherra. Eftir tíu daga úthald á hálendinu eru gangnamenn þeirra nú komnir til byggða með vænt fé af fjalli og þessa dagana er verið að rétta í sveitum Suðurlands og í dag var réttað í Hrunaréttum og Skaftholtsréttum.

Stemningin er jafnan mikil í réttum í uppsveitum Árnessýslu enda hvergi á landinu sem göngur eru jafn langar og þar. Gangnamenn Gnúpverja, Skeiða- og Flóamanna og Hrunamanna lögðu af stað um miðja síðustu viku og fóru á hestum alla leið upp undir Hofsjökul. Þeim er fagnað með fjöldasöng.

Bændur bíða þess spenntir að sjá hvernig fé þeirra hefur braggast á fjöllum. Fjallkóngur Skeiðamanna, Aðalsteinn Guðmundsson, segir féð vænt og að kalt vor hafi ekki spillt fyrir vexti þess.

Sunnlendingar eiga einnig fjalldrottningu en Lilja Loftsdóttir stjórnar nú leitum Gnúpverja þriðja árið í röð. Hún segir margt hafa breyst frá því hún fór fyrst að muna eftir sér. Fé hafi fækkað mikið og muni þar verulega. Mannfólkinu hafi hins fjölgað í réttunum.

Stjórnmálamenn voru áberandi í dag en Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra segir að sá stjórnmálamaður sem ekki mæti í réttirnar, hann nái ekki kjöri.

Það er víða hægt að komast í réttir næstu daga enda framundan stærsta réttarhelgin þetta haustið. Stóðréttir eru í Skagafirði og Húnavatnssýslu um helgina en frumlegustu réttirnar verða sennilega í Biskupstungum á morgun. Sveitin er fjárlaus vegna riðuniðurskurðar en mannfólkið ætlar engu að síður að fjölmenna í Tungnaréttir klukkan ellefu í fyrramálið til að skála og syngja og taka bændaglímu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×