Innlent

Samgönguvikan fyrir Hrein Loft

MYND/Haraldur Jónasson

Samgönguvika Reykjavíkurborgar hefst í dag en þar er hreint loft haft að leiðarljósi og takmarki. Setningarathöfn verður klukkan fjögur í dag en á morgun fara hjólalestir um víðan völl í Reykjavík.

Eflaust hafa margir rekið augun í auglýsingar fyrir samgönguvikuna en á þeim sést maður með mikið eldrautt hár og slagorðið fyrir ofan er "framtíð hreins lofts er í þínum höndum". Það sem færri vita er að maðurinn á myndinni heitir Hreinn Loftur.

Samgönguvikunni er ætlað að vekja athygli á því að val okkar á samgöngumáta hefur ekki einasta áhrif á umhverfi og lífsskilyrði Hreins Lofts, heldur okkar allra.

Gísli Marteinn Baldursson segir að í vikunni verði ýmis fræðsla og kynning á kostum þess að hjóla eða ganga frekar en að aka á einkabílnum. Það dregur úr mengun og eflir heilsuna, auk þess sem það lífgar upp á borgarbraginn. Gísli mun setja samgönguvikuna á eftir klukkan fjögur en á morgun leggja hjólalestir af stað víða á höfuðborgarsvæðinu og mætast svo í Hljómskálagarðinum þar sem verður hjólreiðakeppni og fleira skemmtilegt.

Gísli bendir einnig á að í vikunni verði kynnt kort af hjólreiðastígum sem eru inni á vef umhverfissviðs Reykjavíkurborgar, sem hægt er að finna með því að fara inn á vefsvæðið reykjavik.is. Einnig er á vefnum kort sem sýnir hversu langt sé hægt að komast á korteri eftir göngu- og hjólreiðastígum höfuðborgarsvæðisins, og segir Gísli að það sé drjúgara en margur haldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×