Innlent

Vestnorden mikilvæg fyrir ferðaþjónustuna

Gríðarstór kaupstefna ferðaþjónustuaðila, Vestnorden, stendur nú yfir í Laugardagshöllinni. Ferðamálastjóri segir allar ferðaskrifstofur, sem hingað selja ferðir, vera staddar hér á landi fyrir kaupstefnuna.

Ferðaþjónustuaðilar á Íslandi, Grænlandi, Færeyjum og Hjaltlandseyjum kynna þjónustu sína í Laugardalshöllinni í dag og stendur kaupstefnan fram til hádegis á morgun. Kaupstefnan var sett í gærkvöld í tuttugasta og fyrsta skipti en hún er haldin til skiptis í aðildarlöndunum og stækkar með hverju árinu. Nú eru hér á landi um 300 aðilar til að kynna þjónustu sína og 200 sem vilja kynna sér þjónustuna og selja ferðir til Íslands í útlöndum.

Magnús Oddsson, ferðamálastjóri, segir ráðstefnuna stækka með hverju árinu sem sýni vaxandi áhuga á svæðinu. Hann segir flestar erlendu ferðaskrifstofurnar vera frá Evrópu og Norður-Ameríku en í vaxandi mæli sýni Asíubúar svæðinu áhuga. Hann segir ráðstefnuna gríðarlega mikilvæga fyrir innlenda ferðaþjónustuaðila því að hana sæki allar erlendar ferðaskrifstofur sem selji ferðir til Íslands eða hinna landanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×