Innlent

Kreditkortavelta eykst 10 sinnum meira en kaupmáttur

Kaupmáttur Íslendinga eykst um 2,3% miðað við sama tíma í fyrra en kreditkortavelta eykst tæplega tíu sinnum meira, sé miðað við fyrstu sjö mánuði ársins.

Í nýjasta tölublaði Hagtíðinda kemur fram að vísitala neysluverðs í ágústmánuði hækkar um 0,34% frá fyrra mánuði, sem samsvarar 8,1% verðbólgu á ársgrundvelli. Launavísitala hafði í júlí hækkað um 10,2% frá því í sama tíma í fyrra en vísitala neysluverðs hækkaði um 8,2% á sama tíma. Þetta þýðir að kaupmáttur Íslendinga, sem er hækkun launa umfram verðbólgu, hefur aukist um 2,3% frá því á sama tíma í fyrra.

Og þetta nýtir fólk sér og straujar kreditkortin sem aldrei fyrr. Kreditkortavelta heimilanna frá janúar til júlí í ár er 22,4% meiri en fyrstu sjö mánuði ársins í fyrra. Debetkortanotkun eykst um 9% á sama tíma.

Útflutningur vara frá Íslandi er minni en innflutningurinn; vöruskiptin voru óhagstæð Íslandi um 19,1 milljarð króna í júlí síðastliðnum en voru óhagstæð Íslandi um 11,9 milljarða á sama gengi í júlí í fyrra. Samkvæmt bráðabirgðatölum frá Hagstofunni var útflutningur í ágústmánuði reyndar aðeins 11,7 milljörðum króna minni en innflutningurinn, sem er minni halli en var í ágústmánuði í fyrra. Búist er við að þessi vöruskiptahalli færist í betra horf um leið og innflutningur til stóriðju hættir og sérstaklega þegar útflutningur hefst frá tilvonandi álveri við Reyðarfjörð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×