Innlent

Sameiningin skerðir þjónustu og valfrelsi

MYND/Haraldur Jónasson

Varaformaður Læknafélags Íslands segir að sameining Borgarspítalans og Landspítalans hafi verið misráðin og að starfsmannastefna sameinaðs háskólasjúkrahúss skerði valfrelsi lækna og þjónustu við sjúklinga.

Í ályktun Læknafélags Íslands frá landsfundi þess fyrir helgi kemur fram að eina hagræðingin sem hingað til hafi komið fram af sameiningunni sé fækkun sjúkrarúma og allt of mikil fækkun starfsfólks sem leiði af sér lélegri þjónustu við sjúklinga og minni tíma til vísindastarfa.

Sigurður E. Sigurðarson, varaformaður Læknafélags Íslands, segir það tæpast ávinning ef hagræðingin bitni á sjúklingum í stað þess að þjóna þeim. Hann segir að yfirstjórn sjúkrahússins segi enn að þetta taki allt sinn tíma og að ávinningurinn komi ekki í ljós tafarlaust. Hins vegar segir hann að ófriðurinn hafi verið nánast viðvarandi síðan sjúkrahúsin voru sameinuð, nú síðast með dómsmálum milli sjúkrahúsyfirvalda og yfirlækna.

Sigurður gagnrýnir starfsmannastefnu Landspítala háskólasjúkrahúss á þá leið að yfirlæknar megi ekki vinna utan spítalans, og segir hana leggja fjötra á menn en þó sé verst að þar með falli milli skips og bryggju þjónusta yfirlæknanna við sjúklinga sína sem þeir hafi sinnt á stofum sínum en hafi ekki aðstöðu til að sinna á Landspítalanum. Þar bitni sameiningin líka á sjúklingum. Einnig talar hann um að valfrelsi lækna sé skert eftir sameininguna þar sem læknar hafi nú aðeins einn stóran vinnustað að leita til í stað tveggja stórra sjúkrahúsa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×