Innlent

Sundabraut og hátæknisjúkrahúsi verði slegið á frest

Starfandi formaður fjárlaganefndar vill að byggingu hátæknisjúkrahúss og Sundabrautar verði slegið á frest og öllu söluandvirði Símans verði varið í að viðhalda stöðugleika.

Hann ætlar að beita sér fyrir lagasetningu þessa efnis í haust. Þegar búið að eyrnamerkja átján milljarða af söluandvirði símans í hátæknisjúkrahús. Fimmtán milljarðar eiga að fara til vegagerðar og fimm og hálfur til viðbótar í nýsköpunarsjóð og kaup á varðskipi og þyrlu fyrir landhelgisgæsluna. Undanfarið hafa vaknað efasemdaraddir á stjórnarheimilinu um þessa ákvörðun. Einar Oddur Kristjánsson, sem er starfandi formaður fjárlaganefndar eftir að Magnús Stefánsson varð ráðherra segir að rétt sé að verja öllu andvirðinu af sölu Símans í að viðhalda stöðugleika. Það sé sérstaklega brýnt nú, eftir að kjarasamningar voru samþykktir.

Í raun á ekki að eyða nema tvöhundruð milljónum af símapeningunum á næsta ári. Á árunum 2008 og 2009 á eyðslan fyrst að hefjast fyrir alvöru, en Einar Oddur telur að það séu hagsmunir allra að eyða peningunum frekar í að ná niður verðbólgunni. Hann vill að bæði byggingu hátæknisjúkrahúss og Sundabrautar verði slegið á frest. Almennt telur Einar að bankarnir, ríkisfyrirtæki og allur almenningur eigi að eyða minni peningum á komandi misserum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×