Innlent

Stjórnendur Baugs vildu semja við Jón Gerald

Jón Gerald Sullenberger
Jón Gerald Sullenberger MYND/GVA

Stjórnendur Baugs vildu semja við Jón Gerald Sullenberger, fyrrverandi viðskiptafélaga sinn, um uppgjör á öllum skuldum og skuldbindingum við hann eftir að Baugur höfðaði mál á hendur Jóni Gerald í Flórída á sínum tíma. Þetta kemur fram í viðtali við Jón í Morgunblaðinu í morgun. Jón Gerald segist hafa gengið að því boði, en jafnframt hafi verið samið um að hvorugur tjáði sig frekar um málið, sem Jón segir að Baugur hafi svikið, og upp úr því hafi Baugsmálið farið af stað.

Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Baugs, segir meðal annars í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í morgun vegna ummæla Jóns Geralds að þessi ákvörðun hafi byggst á hagsmunamati af hálfu félagsins, en hafi ekki falið í sér viðurkenningu á réttmæti kröfugerðar Jóns. Stjórnendur Baugs hafi viljað skapa félaginu starfsfrið, einkum vegna viðskipta erlendis, og þurfa ekki að elta ólar við dylgjur og óhróður af því tagi sem geti að líta í Morgunblaðinu í dag.

Morgunblaðið birtir annan hluta viðtals við Jón Gerald í dag. Þar segir hann að hann hafi ekki órað fyrir því þegar hann hóf Baugsmálið að það yrði eins fyrirferðarmikið í íslensku þjóðlífi og raun ber vitni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×