Innlent

8 menn handteknir vegna skotárásar í Hafnarfirði

Lögreglan handtók í dag átta menn vegna skotárásar sem gerð var með haglabyssu á raðhús í Hafnarfirði í gær. Fimm hefur verið sleppt en þrír eru enn í haldi.

Það var snemma í gærmorgunn sem friðurinn var rofinn í Vallarhverfinu í Hafnarfirði. Keyrt var upp að húsi á Burknavöllum og skotið í gegnum rúðu með haglabyssu. Íbúar í grennd er enn brugðið enda rólegt fjölskylduhverfi.

Þegar NFS bar að garði mátti hvarvetna sjá börn að leik. Þau sögðust hafa orðið hrædd þegar þau heyrðu af skotunum. En ekki kæmi til greina að hætta að leika sér.

Lögreglan í Hafnarfirði handtók í dag átta menn vegna málsins. Fimm var sleppt úr haldi en beðið var ákvörðunar um gæsluvarðhald yfir hinum þremur. Yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar vildi ekki svara því hvort um handrukkun hefði verið að ræða. Málið væri enn í rannsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×