Innlent

Starfsfólk IGS gengur á dyr verður það krafið um bætur

MYND/Teitur Jónasson

Starfsmenn Flugþjónustunnar á Keflavíkurflugvelli munu hætta störfum umsvifalaust ef bótakrafa verður gerð á hendur þeim vegna fyrirhugaðrar vinnustöðvunar þeirra næstkomandi sunnudag. Það eina sem gæti komið í veg fyrir aðgerðir væri að stjórnendur ræddu við starfsfólk um kjör þeirra.

Starfsfólk Flugþjónustunnar á Keflavíkurflugvelli, eða IGS ground services, ákvað á hitafundi fyrr í vikunni að leggja niður vinnu í þrjár klukkustundir milli klukkan fimm og átta næstkomandi sunnudagsmorgun, á háannatíma. Ætla má að vinnustöðvunin muni raska ferðum allt að tvö þúsund farþega Icelandair og Iceland express.

Í gær sendu svo Samtök atvinnulífsins bréf til verkalýðsfélaga starfsmanna til að vekja athygli á að samningur sé í gildi og því ríki friðarskylda. Ef af aðgerðum yrði gætu félögin og starfsmenn orðið bótaskyldi vegna þess tjóns sem aðgerðir þeirra valdi.

Formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja, annars verkalýðsfélaga starfsmanna, sagði í fréttum NFS í gær að félagið hefði hvatt starfsmenn til að hætta við boðaðar aðgerðir. Hann sagði bréf Samtaka atvinnulífsins lítið annað en hótun.

Jóhanna Halldórsdóttir, starfsmaður hjá Flugþjónustunni, segir að fréttir af bréfinu hafi vissulega skotið starfsfólki skelk í bringu en innihald þess hafi stappað í það stálinu. Það sé því ljóst að af aðgerum verði á sunnudagsmorguninn.

Jóhanna segir að starfsfólk ætli að ganga út ef það verður krafið um bætur verði af aðgerðunum. Hún segir að það sem geti komið í veg fyrir aðgerðir starfsfólks sé að stjórnendur IGS settust niður með starfsfólki sínu og ræddu við það um kaup og kjör. Reynt hefði verið að ná eyrum þeirra en án árangurs. Trúnaðarmenn hefðu rætt við þá í tvo mánuði en ekkert komið út úr því.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×