Innlent

Samningar í höfn - skattleysismörk í 90 þúsund

Grétar Þorsteinsson, formaður ASÍ.
Grétar Þorsteinsson, formaður ASÍ. Mynd/Jón Hjörtur Hjartarson

Fulltrúar ASÍ og Samtaka atvinnulífsins eru nú að undirrita samninga sem tryggja að ekki kemur til átaka á vinnumarkaði um næstu áramót. Forsenda samninganna var yfirlýsing ríkisstjórnarinnar sem gefin var aðilum vinnumarkaðins á sjöunda tímanum. Þar bar helst að skattleysismörk eru hækkuð í 90 þúsund og upphæðin verður verðtryggð frá næstu áramótum.

Auk hækkunar á skattleysismörkum verða gerðar breytingar á vaxtabótakerfinu sem hækka vaxtabætur. Auk þess verða barnabætur héreftir greiddar til átján ára aldurs í stað 16 nú. Í ofanálagt lofar ríkisstjórnin á annað hundrað milljónum í starfsmenntasjóð.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra sagði að á móti þessum aðgerðum yrði því frestað að lækka tekjuskattsprósentuna um eitt prósent. Hann áætlar kostnaðinn við yfirlýsinguna á sjötta milljarð króna á ársgrundvelli fyrir ríkisvaldið.

Grétar Þorsteinsson, forseti Alþýðusambandsins sagðist sáttur við þessa yfirlýsingu og sagði ekkert að vanbúnaði að ganga frá samningum við Samtök atvinnulífsins. Strax að loknum fundi í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu fóru forkólfar ASÍ á fund með SA þar sem samningar voru undirritaðir.

Verkalýðshreyfingin fékk ekki þá kröfu sína í gegn gagnvart ríkisstjórininni að sérstakt lægra skattþrep yrði sett á lægstu tekjurnar og auk þess hafnaði ríkisstjórnin því að endurskoða umdeild eftirlaunaréttindi ráðherra og æðstu embættismanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×