Innlent

Nýr meirihluti vill ekki endilega ódýrustu lausnina við byggingu Sundabrautar

Gísli Marteinn Baldursson
Gísli Marteinn Baldursson

Nýi meirihlutinn í borginni vill hærra hlutfall sérbýlis á Geldinganesi og glæsilega lausn Sundabrautar. Þetta var meðal þess sem kom fram í hádegisviðtali NFS við Gísla Martein Baldursson, formann skipulagsráðs.

Gísli Marteinn var spurður um það sem hæst ber í skipulagsmálum Reykjavíkurborgar. Hann sagði einhverjar breytingar verða á áætlunum borgarinnar. Með nýjum meirihluta kæmu alltaf nýjar áherslur. Til að mynda vildi nýi meirihlutinn ráðast strax í framkvæmdir við mislæg gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Besta lausnin sem fram hefði komið fæli í sér að Miklubrautin og Kringlumýrarbrautin færu báðar í lokaða stokka en ofanjarðar væri hringtorg fyrir umferð þeirra sem ætluðu að beygja af annarri yfir á hina.

Varðandi Sundabrautina sagði Gísli Marteinn mikilvægt að vanda til verka. Þetta væri tími stórra hugmynda. Ekki ætti að stökkva strax á ódýrustu lausnina nema hún væri klárlega best. Reykjavíkurborg skuldaði fólki í nágrenni hinnar nýju Sundabrautar að vel yrði staðið að hönnuninni og framkvæmdinni.

Á Geldinganesinu er stefnt að því að reisa blandaða byggð, sagði Gísli Marteinn. Þó yrði hlutur sérbýlis hærri en hingað til hefur sést í skipulagningu svæðisins. Þessar lóðir yrðu þó ekki gríðarstórar eða dýrar heldur hannaðar undir lítil sérbýli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×