Innlent

Birkir Jón líklega formaður fjárlaganefndar

Framsóknarþingmaðurinn, Birkir Jón Jónsson, tekur að öllum líkindum við formennsku í fjárlaganefnd Alþingis í haust. Jón Sigurðsson, verðandi ráðherra, fer í launalaust leyfi frá Seðlabankanum en á meðan gefst ráðamönnum svigrúm til að finna nýjan seðlabankastjóra.

Sem formaður fjárlaganefndar hefur Magnús Stefánsson undanfarin þrjú ár gegn einu valdamesta embætti innan þingsins. Hann var í dag á skriftstofu sinni að pakka saman. Á fimmtudag verður Magnús ráðherra en hann sest þá í félagsmálaráðuneytið. Hann er hins vegar að yfirgefa afar krefjandi starf í þinginu.

Ásamt Magnúsi situr Birkir Jón Jónsson í fjárlaganefnd fyrir Framsóknarflokkinn og lykilmenn í báðum stjórnarflokkum sem rætt var við í dag sögðu það líklegast að hann tæki við formennsku í haust.

Starf seðlabankastjóra er einnig að losna við það að Jón Sigurðsson verður iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Hann mun þó til að byrja með fara í launalaust leyfi í tvo mánuði. Áhrifamenn í stjórnarflokkunum telja nær útilokað að Halldór Ásgrímsson muni verða seðlabankastjóri. Margir staldra við nafn Finns Ingólfssonar en þó telja menn fremur ólíklegt að sú verði niðurstaðan. Líklegast er að innanbúðarmaður í Seðlabankanum verði settur tímabundið þar til búið verður að kjósa nýja forystu Framsóknarflokksins, sem ráðstafi svo starfinu í haust.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×