Innlent

Vilja að boðað verði til kosninga

Formenn allra stjórnarandstöðuflokkanna telja réttast að boðað verði til þingkosninga sem fyrst vegna þeirra hræringa sem séu í ríkisstjórninni. Þeir segja stjórnina þrotna að kröftum og ekki geta tekist á við þau stóru mál sem blasi við í samfélaginu.

Eins og kunnugt er tilkynnti Halldór Ásgrímsson í gærkvöld að hann hygðist bæði segja af sér sem forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins og að Geir H. Haarde tæki við sem forsætisráðherra á næstunni eftir viðræður stjórnarflokkanna þar um.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri - hreyfingarinnar græns framboðs, segir um brotthvarf Halldórs úr pólitík að það hafi líklega ekki borið að eins og forsætisráðherra vildi. Steingrímur segir tíðindin sýna að ríkisstjórnin sé laskað fley og því sé réttast að boða til þingkosninga.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir samtarf Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins ekki lengur snúast um málefni og stefnu heldur um að halda völdum. Hún bendir á að ákveðin upplausn sé í efnahagsmálum, kjaramálum og varnarmálum.

Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, segir atburði síðustu daga sýna að alger upplausn sé innan Framsóknarflokksins. Halldór hafi ekki fundið sig í embætti forsætisráðherra og feli nú Geir H. Haarde að stjórna þannig að það sé forysta í ríkisstjórninni sem sé ekki alveg sundruð inn á við.

Formaður Sjálfstæðisflokksins og verðandi forsætisráðherra gefur hins vegar lítið fyrir þær kröfur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×