Innlent

Fjársvelti Hafró veldur ónógum rannsóknum á loðnunni

Veita þarf meira fjármagni til Hafrannsóknastofnunar til þess að betur megi standa að rannsóknum á loðnustofninum. Bágt ástand þorskstofnsins er ekki eingöngu tilkomið vegna ofveiði á þorski, heldur er ein ástæðan ofveiði á loðnunni. Þetta segja þingmenn stjórnarandstöðu sem sitja í sjávarútvegsnefnd.

Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingar, segir Hafrannsóknastofnun ekki hafa gert nægjanlega ítarlega úttekt á loðnustofninum eða notkun togveiðarfæra á lífríki sjávar. Þetta sé til komið vegna fjársveltis Hafró sem ekki fái nægt fjármagn til að rannsaka hafsvæðið í kringum Ísland eins og vera skyldi.

Hann bendir einnig á að þorskstofninn líði fyrir það að undanfarin ár hafi of mikið verið sótt í stærri og eldri þorska, þar sem þeir gefi meira af sér í saltfiskvinnslu. Stærri hrygnur gefi hins vegar af sér mun meira af hrognum, auk þess sem gæði hrogna þeirra séu mun meiri og úr þeim komi sterkari seiði. Nú þurfi að vernda þessar ættmæður með strangari reglum um veiðibann á hrygningartíma.

Magnús Þór Hafsteinsson, þingmaður Frjálslynda flokksins og fiskifræðingur, segir aðaláhyggjuefnið vera hversu þorskurinn og ýsan eru horuð. Vistkerfið sé ekki í jafnvægi út af miklum veiðum á loðnunni, sem sé grunnþáttur í fæðu margra annarra fisktegunda. Hann segir að hætta verði loðnuveiðum til bræðslu og einbeita sér að loðnuveiðum til manneldis, sem gefi mun meira í aðra hönd.

Þá þurfi einnig að grisja bæði ýsu- og þorskstofninn. Vandamálið sé að það séu of margir fiskar um of lítið fæði og því þurfi bæði að fækka fiskunum og auka ætið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×