Erlent

Eldvirkni í Merapi meiri eftir jarðskjálftann

MYND/AP

Yfirmaður hjálparstarfs hjá Sameinuðu þjóðunum segir björgunarsveitir og lækna í kapphlaupi við tímann að bjarga þeim sem slösuðust í jarðskjálfta sem skall á indónesísku eyjunni Jövu um helgina og varð minnst 5.000 manns að bana. Eldvirkni í eldfjallinu Merapi á eyjunni hefur aukist.

Mörg þúsund íbúar á Jövu leituðu sér lækninga og létu binda um sár sín á sjúkrahúsum víðsvegar um eyjuna í morgun. Eyjaskeggjar eru enn í losti eftir að jarðskjálfti upp á 6,3 á Richter reið yfir og varð hátt í 5.000 manns að bana. Minnst 20 þúsund manns slösuðust og 200 þúsund manns hafa misst heimili sín.

Læknar eiga nú fullt í fangi með að hlúa að slösuðum sem liggja á plastdúkum og strámottum fyrir utan full sjúkrahúsin. Margir íbúar hafa þó gefist upp á að hýrast fyrir utan sjúkrahúsin eða í lekum sjúkratjöldum og hafa sumir snúið aftur til síns heima, þó húsin séu rústir einar, og leitað þar skjóls.

Jan Engeland, stjórnandi hjálparstarfs Sameinuðu þjóðanna á hamfarasvæðum, segir lækna nú í kapphlaupi við tímann að bjarga þeim sem liggja sárir eftir hamfarirnar. Því sé það mikið verk sem bíði björgunarmanna sem þurfi að koma hjálpargögnum til nauðstaddra á þeim svæðum sem verst urðu úti.

Fulltrúar hjálparsamtaka á vegum Sameinuðu þjóðanna koma saman til fundar í Genf í Sviss í dag til að ræða næstu skref. Einhver samtakanna hafa þegar sent hjálpargögn en fulltrúar þeirra segja þörf á margfalt meiru.

Asíulönd hafa heitið milljónum bandaríkjadala í stuðning, mörgum tonnum af hjálpargögnum og mörg hundruð læknum og björgunarfólki. Stjórnvöld á Indónesíu hafa heitið rúmlega hundrað milljónum dala til endurbyggingarstarfs.

Björgunarsveitir frá fjölmörgum löndum eru þegar komnar á þau svæði sem verst urðu úti. Talið er að fjölmargir liggi en grafnir í rústum húsa en engar líkur taldar á að nokkur finnist á lífi.

Eldvirkni í eldfjallinu Merapi á Jövu er nú sögð þrefalt meiri en fyrir jarðskjálftann. Mörg þúsund íbúar hafa þegar verið fluttir frá nærliggjandi svæðum. Sérfræðingar segja enn hættu á miklu eldgosi og því er gæsla á svæðinu margföld á við það sem var fyrir skjálftann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×