Innlent

Matarverð í Reykjavík nær helmingi hærra en í Stokkhólmi

MYND/Sigurður Jökull

Matarkarfan í Reykjavík er nærri tvöfalt dýrari en í Stokkhólmi samkvæmt nýrri verðkönnun Alþýðusambands Íslands í matvöruverslunum á Norðurlöndum. Af íbúum í höfuðborgum norrænu ríkjanna borga Oslóbúar einir svipað verð og Reykvíkingar fyrir matinn.

Verðlagseftirlit Alþýðusambandsins gerði verðkönnun í öllum norrænu höfuðborgunum 9. og 10. maí þar sem athugað var verð á helstu nauðsynjum. Farið var í leiðandi matvörukeðjur á hverjum stað, annars vegar í lágvöruverðsverslun og hins vegar í stórmarkað þar sem vöruúrval er meira og þjónusta sömuleiðis. Borið var saman meðalverð þessara verslanagerða í hverju landi.

Könnunin leiddi í ljós að vörukarfan í Reykjavík var dýrust og kostaði 4767 krónur en næstdýrust var hún í Noregi 4.613 krónur. Sams konar karfa kostaði um þrjú þúsund krónur í Kaupmannahöfn og Helsinki en ódýrust var hún í Stokkhólmi og kostaði um 2500 krónur.

Mestu reyndist verðmunurinn á kjöti, ostum, eggjum og mjólkurvörum, öðrum en drykkjarmjólk, en minni á grænmeti og ávöxtum. Svo dæmi séu tekin kostaði kílóið af hefðbundnum brauð osti um þúsund krónur hér en um 450 krónur í Svíþjóð. Svipaða sögu var að segja af kjúklingabringum. Kílóið af þeim kostaði um 2000 krónur í Reykjavík en 750 krónur í Stokkhólmi. Lítrinn af bæði léttmjólk og nýmjólk reyndist hins vegar dýrastur í Noregi.

Af þeim tuttugu vörum sem skoðaðar voru reyndist verðið ellefu sinnum hæst í Reykjavík, fjórum sinnum í Osló, þrisvar í Helsinki og einu sinni í Stokkhólmi og Kaupmannahöfn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×