Innlent

Vetnisbílar á almennan markað eftir 4 til 8 ár

Vetnisknúnir fólksbílar geta farið í fjöldaframleiðslu og á almennan markað eftir fjögur til átta ár. Bandaríski bílaframleiðandinn General Motors er nú í kynningarferð hér á landi með hóp erlendra blaðamanna til að kynna þróun vetnistækninnar.

Í farangri kynningarhópsins er prufugerð af vetnisknúnum fólksbíl frá General Motors sem er fyllilega sambærilegur venjulegum fólksbíl, fyrir utan eldsneytið, og útblásturinn, sem er vatn, svo hreint að það má safna því í glas og drekka með bestu lyst.

Bíllinn er einnig hljóðlátari en venjulegir bensínbílar, enda er efnahvarfið þegar vetnið rennur saman við súrefni í andrúmsloftinu, mun hljóðlátari en bensínbruninn sem knýr venjulega bíla.

Jón Björn Skúlason, framkvæmdastjóri Íslenskrar NýOrku, sem er frumkvöðull á sviði vetnisrannsókna, segir ekki langt í að vetnisbílar komi á göturnar við hlið bensínbíla.

Bíllinn verður til sýnis almenningi á fimmtudaginn kemur, við vetnisstöðina á Vesturlandsvegi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×