Innlent

Ætla ekki að starfa við spítalann

Heill árgangur hjúkrunarfræðinga, sem útskrifast í vor, ætlar ekki að hefja störf á Landspítalanum nema laun verði hækkuð. Landspítalinn á í samningaviðræðum við erlendar starfsmannaleigur til þess að ráða bót á manneklunni á spítalanum.

Hálfgert neyðarástand er að skapast á Landsspítalanum vegna viðvarandi mannekklu. Sár skortur á hjúkrunarfræðingum hefur gert það að verkum að yfirmenn Landsspítalans hafa neyðst til að leita til útlanda. Samkvæmt heimildum fréttastofu hafa þegar verið ráðnir þó nokkrir hjúkrunarfræðingar frá Svíþjóð og Danmörku og til stendur að ráða fleiri, meðal annars á smitsjúkdóma-, lungna-, og taugadeild. Yfirmenn spítalans eiga nú í viðræðum við starfsmannaleigu á norðurlöndunum, vegna frekari mannaráðninga, bæði til skemmri og lengri tíma. Heimildamenn fréttastofu innan Landsspítalans eru sammála um að þetta sé ekki góð þróun, enda eðli starfsins slíkt að það krefjist íslenskukunnáttu.

Fjórða árs nemarnir sem útskrifast í vor hafa þegar sent frá sér ályktun þessa efnis og samkvæmt heimildum fréttastofu er málið í skoðun hjá sviðsstjórum hjúkrunar á Landsspítalanum.

Sem stendur eru grunnlaun nýútskrifaðs hjúkrunarfræðings 205 þúsund krónur. En hópurinn sem er að útskrifast í vor hefur farið þess á leit að fara upp um einn launaflokk, sem þýðir að þeir myndu byrja í rétt rúmum 215 þúsund krónum á mánuði.

Ef ekkert gerist og hópurinn gerir alvöru úr því að hefja ekki störf á Landsspítalanum, er svosem að nógu að hverfa og til að mynda vantar mikið af hjúkrunarfræðingum við störf á elliheimilum, þar sem hefð er fyrir því að nýútskrifaðir hjúkrunarfræðingar fái hærri laun en á Landsspítalanum. Þá færist það í vöxt að hjúkrunarfræðingar starfi í einkageiranum, þar sem þeim býðst í flestum tilvikum hærri laun en hjá Landsspítalanum.

Samkvæmt nýlegri úttekt á störfum hjúkrunafræðinga hverfa um 13% til annarra starfa að námi loknu og að jafnaði skiptir hver hjúkrunarfræðingur um starfsvettvang á tveggja til tveggja og hálfs árs fresti. Það er því af sem áður var, þegar það þótti nánast sjálfgefið að eftir nám í hjúkrunarfræði tæki við starf á Landsspítalanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×