Innlent

Leitað á ákveðnum svæðum

Dregið hefur verið úr umfangi leitarinnar að Pétri Þorvarðarsyni sem ekkert hefur spurst til síðan aðfaranótt sunnudags. Byrjað er að kalla björgunarsveitarmenn heim en leit verður haldið áfram á ákveðnum svæðum.

Þrátt fyrir mikinn fjölda leitarmanna hefur leitin að Pétri Þorvarðarsyni enn engan árangur borið. Ekkert hefur spurst til hans síðan um klukkustund eftir að hann fór út úr skála sem hann var í ásamt öðrum. Þá hringdi hann í ferðafélaga sína en síðan er ekkert vitað af ferðum hans.

Sigurður Brynjólfsson, yfirlögregluþjónn á Húsavík, segir leitarskilyrði hafa verið góð í gær og í dag. Leitin hafi þrátt fyrir það því miður engum árangri skilað.

Síðdegis í dag var tekið til við að fækka í leitarliðinu. Björgunarsveitarmenn að austan halda áfram leit á ákveðnum svæðum en björgunarsveitarmenn annars staðar frá snúa til síns heima. Ef leitin ber ekki árangur næstu daga verður efnt til umfangsmikillar leitar um helgina.

Hvarf Péturs hefur kallað fram mikil viðbrögð á Austurlandi og Austfjörðum. Baldur Pálsson, slökkviliðsstjóri á Egilsstöðum, segir fjölda fólks hafa boðið fram aðstoð við leitina. "Við þekkjum ekki annað eins," segir hann um hversu mikil aðstoð hafi verið boðin fram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×