Innlent

Óflughæfar nær fimmta hvern dag frá áramótum

TF-LÍF verður að öllum líkindum nothæf á morgun.
TF-LÍF verður að öllum líkindum nothæf á morgun. MYND/Sigurður Jökull Ólafsson

Þyrlur Landhelgisgæslunnar hafa verið óflughæfar samtímis nær fimmta hvern dag frá áramótum. Þá daga hefur þurft að treysta alfarið á aðstoð frá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli eða danska varðskipinu Triton ef þyrlu hefur þurft til björgunarstarfa.

Hvorug þyrla Landhelgisgæslunnar hefur verið til taks undanfarna daga. Því þurfti að leita til Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli og danska varðskipsins Tritons til að fá þyrlur til leitar að piltinum sem týndist á Möðrudalsöræfum.

Báðar þyrlur varnarliðsins hafa verið mikið frá síðustu mánuði og meira en undanfarin ár, einkum vegna þrjú þúsund tíma skoðunar á TF-LÍF og endurbóta á TF-SIF.

Þá 136 daga sem liðnir eru af árinu hefur TF-LÍF verið frá vegna bilana í fjóra daga og 55 daga vegna reglubundinna skoðana. Allt í allt eru það 59 dagar.

TF-SIF hefur verið enn meira frá. Hún hefur misst úr 20 daga vegna bilana og 52 vegna endurbóta. TF-SIF hefur því ekki verið flughæf í 72 daga, eða meira en helmings þess tíma sem liðinn er af árinu.

Nú þegar fimm og hálfur mánuður er liðinn af árinu hafa báðar þyrlurnar verið til taks samtímis í 38 daga en 24 daga hefur staðan verið sú að hvorug þyrlan hefur verið til taks. Hvorug þyrlan er til taks í augnablikinu. TF-LÍF verður þó að öllum líkum aftur nothæf á morgun og TF-SIF er væntanleg frá Noregi 25. maí.

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra og æðsti yfirmaður Landhelgisgæslunnar, vildi ekkert tjá sig um ástand þyrlanna þegar rætt var við hann í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×