Innlent

Hraðamyndavélum fjölgað í Reykjavík

Borgarráð samþykkti í dag að setja upp hraðamyndavélar á helstu hraðakstursstöðum í Reykjavík. Lögreglan segir myndavélar hjálpa mikið við að stöðva þá sem liggur lífið á. Hraðamyndavélarnar verða staðsettar við helstu umferðaræðar borgarinnar, svo sem Sæbraut, Breiðholtsbraut og Ártúnsbrekku þar sem ökumenn hafa ítrekað virt hraðatakmarkanir að vettugi.

Hraðamyndavélar eru geysiöflugar í baráttunni við hraðakstur. Um helmingur allra hraðasekta í umdæmi Reykjavíkurlögreglunnar koma frá hraðamyndavélum, þar af er talsverður hluti úr myndavélunum í Hvalfjarðargöngunum.

Guðbrandur Sigurðsson, varðstjóri umferðar í Reykjavík, segir hraðakstur vaxandi vandamál, og þá sérstaklega ofsaakstur og flótti undan lögreglu. Hann segir þetta einnig versta árstímann, bensínfóturinn þyngist oft með hækkandi sól. Þrátt fyrir að þurfi mannskap til að vinna úr myndunum og senda út sektir, þá spari þetta mikla vinnu í umferðareftirliti og lögreglumenn geti þá einbeitt sér að öðrum umferðarlagabrotum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×