Innlent

Vinnustaðir fatlaðra bjóða í heimsókn

Opið hús er í dag á mörgum af vinnustöðum fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu og sýningar og uppákomur af því tilefni. Listahátíðinni List án landamæra lýkur á laugardag með stórráðstefnu Átaks, félags fólks með þroskahömlun.

Undirbúningur var í fullum gangi í Bjarkarási í Stjörnugrófinni, þegar NFS leit þar við í morgun. Verið var að reka smiðshöggið á málverkasýningu sem skreytir veggina í tilefni dagsins og niðri í kjallara var fólk í glervinnu. Fólkið í Bjarkarási leggur einnig stund á leirlist, mósaík, auk þess sem í iðjuþjálfuninni taka þau að sér margs konar þjónustu fyrir ýmis fyrirtæki.

Eitt af baráttumálum Átaks, fólks með þroskahömlun er hækkuð laun fyrir þá vinnu sem unnin er á vinnustöðum fatlaðra og er þetta eitt af umræðuefnum á ráðstefnunni á laugardaginn. Helga Pálína Sigurðardóttir, stjórnarmaður í Átaki, segir fatlaða víða fá ósanngjarna meðferð, þeir fái oft mun lægri laun en ófatlaðir.

Önnur málefni sem félagsmenn Átaks munu ræða við stjórnmálamenn og aðra sem láta sig málin varða eru þátttaka þroskahamlaðra í ákvarðanatöku um eigin málefni og fordómar gagnvart fólki með þroskahömlun.

En nú er opið hús í Bjarkarási sem og fleiri vinnustöðum og fólk er hvatt til að líta við og kíkja í listmunabúðina eða gróðurhúsið, og ná sér í gúrku eða kryddjurtir í mósaíkpotti sem fólkið í Bjarkarási hefur unnið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×