Innlent

Best búið að mæðrum og börnum í Svíþjóð

Mynd/Vísir

Svíþjóð er besta land í heimi fyrir mæður og börn þeirra samkvæmt nýrri skýrslu sem samtökin Barnaheill á Íslandi kynntu í dag. Mikill munur er á því hvernig búið er að mæðrum og börnum þeirra í löndum heimsins en Ísland er með hvað lægstu dánartíðni nýbura í heiminum.

Þetta er í sjöunda sinn sem samtökin Save the Children gera úttekt á stöðu mæðra og barna í heiminum en skýrslan var unnin í Bandaríkjunum. Samanburðurinn náði til 125 landa en notuð voru tíu atriði sem viðmið um hvar best og verst væri búið að mæðrum og börnum í löndunum. Svíþjóð trónir efst á listanum og Danmörk og Finnland koma þar á eftir. Afríkuríkið Níger er neðst á listanum en alls skipa ellefu Afríkuríki ellefu neðstu sæti listans. Skýringarnar eru meðal annars að þær að fagmanneskja er stödd því sem næst hverja einustu fæðingu í Svíþjóð en í aðeins 16% fæðinga í Níger. Aðeins eitt barn af hverjum 333 deyr í Svíþjóð áður en það nær eins árs aldri en í Níger deyr eitt af hverjum sjö börnum áður en það nær ársaldri. Menntun kvenna, aðstoð fagfólks við fæðingar og aðgengi að kennslu í notkun getnaðarvarna, eru meðal þeirra atriða sem talin eru hafa hvað mestu áhrif á lífsafkomu barna. Ísland er ekki á lista þeirra 125 landa sem höfð eru til samanburðar í skýrslunni fyrir aðstöðu mæðra og barna í heiminum. Ísland er þó á lista yfir nýburadauða, það er, tíðni barna sem deyja innan fjögurra vikna frá fæðingu. Japan er efst á listanum með lægstu tíðnina en því næst koma Tékkland, Finnland, Ísland og Noregur sem deila öðru sæti á listanum, þar sem tvö börn af hverjum 1000 deyja nýburadauða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×