Innlent

Fréttablaðið fimm ára

Fréttablaðsmenn fagna í dag fimm ára afmæli blaðsins. Gunnar Smári Egilsson segir sterka stöðu þess nú ekki frábrugðna því sem hann hefði getað ímyndað sér þegar farið var af stað með blaðið.

Fimm ár eru í dag liðin síðan fyrsta tölublað Fréttablaðsins kom út en innan tveggja ára var það orðið mest lesna dagblað landsins. Gunnar Smári Egilsson, forstjóri Dagsbrúnar og maðurinn sem lagði drögin að útgáfu blaðsins, segir stöðu þess í dag ekki koma sér á óvart. Það bjó alltaf í henni möguleikinn á að úr yrði eitthvað stórt og mikið," segir Gunnar Smári. "Ég segi kannski ekki ákkúrat eins og það er núna. Að sumu leyti er meiri kraftur í þessu blaði og í að bera það út á heimili fólks en maður var að hugsa um þá. Ég held það sé ekki rétt að segja að það sé meira en nokkurn óraði fyrir. Það var bara ekki tímabært að hugsa svo langt á þeim tíma."

Þrátt fyrir gjaldþrot þáverandi útgáfufélags blaðsins rúmu ári eftir að það kom fyrst út hefur blaðið markað sér sterka stöðu á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Reynslan af rekstri Fréttablaðsins hefur orðið til þess að undirbúningur að útgáfu sambærilegs blaðs í Danmörku er í fullum gangi. Gunnar Smári segir ólíklegt að Fréttablaðið geti bætt við sig mörgum lesendum úr þessu en telur að það haldi áfram að þróast og breytast.

"Það stoppar aldrei. Fjölmiðill sem hættir að þroskast og breytast með samfélaginu, hann dregst aftur úr - því samfélagið er á blússandi siglingu og það væri agalegt ef þeir sem héldu utan um Fréttablaðið í dag myndu líta svo á að nú væri þetta komið, því þá myndi Fréttablaðið skjótast aftur á bak í fortíðinni meðan samfélagið rýkur áfram í framtíðina."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×