Innlent

Gengislækkun hefur áhrif á leiguverð bíla

Mynd/GVA

Afborganir á bílum í rekstrar- og einkaleigu hækka vegna lækkandi gengis krónunnar og aukinnar verðbólgu. Framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda segir að einstaklingar gætu þurft að meta stöðuna upp á nýtt því ekki sé svo auðvelt að losna undan samningum.

Hjá flestum fyrirtækjum sem bjóða upp á rekstrar- og einkaleigu á bílum er hægt að velja um fjármögnun í íslenskum krónum eða erlendri mynt. Leiguverð er þó viðmiðunarverð sem getur verið breytilegt allt eftir því hver staða íslensku krónunnar er gagnvart þeim erlendu gjaldmiðlum sem tekið er mið af við gerð leigusamningsins. Runólfur Ólafsson, framkvæmdarstjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, segir að kostnaður vegna einkaleigu hafi hækkað vegna hruns krónunnar. Á hinn bóginn hafi einstaklingar haft hag af samningnum þegar krónan var sem sterkust.

Runólfur segir að erfitt geti reynst að losna undan einkaleigusamningi. Margir séu með samning til þriggja ára og kostnaður geti fylgt uppsögn samnings. Hann segir fólk gæti þurft að meta stöðu upp á nýtt vegna þessa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×