Innlent

Hátíðahöld víða um land í tilefni sumarkomu

Ætla má að brúnin sé farin að lyftast á flestum landsmönnum því sumartíð með blóm í haga er framundan. Fyrsti dagur sumars er einmitt í dag en vetur og sumar frusu saman í nótt sem sagt er að boði hlýtt sumar.

Sumardagurinn fyrsti verður haldinn hátíðlegur víða um land í dag, þar á meðal í flestöllum hverfum Reykjavíkurborgar. Klukkan ellefu hófst árleg skátamessa í Hallgrímskirkju, á milli klukkan tíu og tólf fór fram fjölskylduskemmtun í og við Vesturbæjarlaugina, í Grafarvoginum var opið hús í frístundaheimilunum í skólum hverfisins fram að hádegi og í Fólkvangi á Kjalarnesi er skipulögð hátíðardagskrá í dag sem hófst klukkan ellefu. Annars staðar hefjast hátíðahöldin nú eftir hádegið, þ.á.m. vorhátíð í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum sem hefst klukkan eitt, og þær fjölmörgu skrúðgöngur sem skipulagðar eru í tilefni dagsins.

Klukkan korter í eitt hefst skrúðganga í Grafarvogi en lagt verður af stað frá Spönginni. Klukkan eitt verður farið í skrúðgöngu frá Þinni verslun í Seljahverfi í Breiðholti, og klukkan korter yfir eitt verður lagt af stað í skrúðgöngu frá Árbæjarkirkju og gengið að verslunarkjarnanum Ásnum.

Klukkan hálf tvö verður svo lagt af stað í tvær skrúðgöngur í borginni: önnur frá Melaskóla vestur í bæ og hin frá Fella- og Hólakirkju í Breiðholti.

Í Kópavogi stendur Skátafélagið Kópar fyrir skrúðgöngu frá Digraneskirkju klukkan hálf tvö og hátíðahöldum í Smáranum á eftir. Í Garðabæ verður farið í skrúðgöngu frá Vídalínskirkju klukkan tvö, og í Hafnarfirði verður gengið frá Víðistaðakirkju þar sem lagt verður í hann klukkan eitt, og svo verða hátíðahöld á Thorsplani.

Á Akureyri verða meðal annars hátíðahöld á safnasvæði Minjasafnins milli klukkan þrjú og fimm og á Ísafirði hófst skátamessa í Ísafjarðarkirkju klukkan tíu og að því loknu var ætlunin að ganga fylktu liði um bæinn í tilefni komu sumarsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×