Innlent

Gengið hrapar

Íslenska krónan hefur fallið um rúm þrjátíu prósent frá áramótum. Gengisfall krónunnar hélt áfram í dag sem og gengi bréfa í Kauphöll Íslands, mest í FL Group eða um fimm komma fimm prósent.

Gengi krónunnar lækkaði um tæp fimm prósent í vikunni og hefur ekki verið lægra í fjögur ár. Dollarinn hefur á undanförnum tólf mánuðum hækkað um 16 krónur og er kominn í tæpar áttatíu krónur, Evran er komin í 97 krónur, breska pundið í 140 og danska krónan í 13. Það er því ljóst að fríið til útlanda er orðið mun dýrara en margir höfðu ætlað. Úrvalsvísitalan féll um tvö og hálft prósent í dag og er nú orðin það sama og hún var um áramótin. Aðeins gengi bréfa í einu fyrirtæki hækkaði í Kauphöllinni í dag en það var í Icelandic Group eða um hálft prósent. Bréf Landsbankans féllu um 5,3 prósent í dag, gengi bréfa í KB banka um tæp þrjú prósent og Dagsbrúnar um rúm tvö. Ljóst er að menn eru ekki á einu máli um það hvert íslenskur efnahagur stefnir og birtast jafn ólíkar skýrslur og þær eru margar frá erlendum bönkum um málið. Greiningardeildir íslensku bankanna segja þó að nú séu kauptækifæri í Kauphöllinni, fyrirtækin séu sterk og efnahagurinn góður. Ekki er hægt að segja að sérstakar fréttir hafi haft áhrif á markaðinn í dag. Stemningin í þjóðfélaginu er einfaldlega döpur og þykir líklegt að skýrsla Barclays um stöðu íslensku bankana, sem birt var á dögunum, sé enn ofarlega í hugum manna. En hvort sem er um upphaf á niðursveiflu að ræða eða jákvæða leiðréttingu á markaðinu á þó enn eftir að koma í ljós.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×