Innlent

Blása í herlúðra gegn hlutafélagavæðingu RÚV

Samfylkingin blés í dag í herlúðra til baráttu gegn frumvarpi ríkisstjórnarinnar um hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins. Frumvarpið var tekið til annarrar umræðu á þingi í dag en öll stjórnarandstaðan er efnislega á móti frumvarpinu. Búast má við miklum ræðuhöldum um málið fram á miðnætti og þegar þingið kemur aftur saman á föstudag.

Við upphaf þingfundar í dag gagnrýndi stjórnarandstaðan forseta þingsins harkalega fyrir að riðla fyrri áætlun þingsins og setja á dagskrá mörg umdeild stjórnarfrumvörp skömmu fyrir þinglok án nokkurs samráðs við stjórnarandstöðuna. Eitt þessara stóru mála væri frumvarp um að gera RÚV að hlutafélagi.Össur Skarphéðinsson sagði sinn flokk hafa séð ýmsa fleti til sátta í því máli sem stjórnarliðar hundsuðu. Össur boðar því hörku andstöðu við málið.

Stjórnarliðar hyggjast heldur ekkert gefa eftir í málinu. Það er því líklegt að það stefni í löng og ýtarleg ræðuhöld. Sumir kalla það málþóf.

Önnur umræða mun halda áfram til miðnættis og mun líklega ekki ljúka fyrir þann tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×