Innlent

Nýsir reisir tíu þúsund fermetra nýbyggingu sunnan Egilshallar

Fyrirtækið Nýsir hyggst reisa tíu þúsund fermetra nýbyggingu sunnan Egilshallar. Í nýbyggingunni verður fjögurra sala kvikmyndahús sem mun rúma 1.000 manns,  36 brauta keilusalur og þemasýning sem ber nafnið "Auga Óðins" en henni verður komið fyrir neðanjarðar

Auga Óðins er hátæknisýning í formi leikmynda, tölvugrafík og tónlistar þar sem gestir upplifa norræna goðafræði og hefur undirbúningur hennar staðið yfir í nokkur ár.  Gengið hefur verið til samstarfs við aðila erlendis sem hafa sett upp sýningar fyrir Disney og Universal. Gervigrasvöllur verður einnig byggður norðan hallarinnar sem og tennisvöllur og aðstaða fyrir frjálsíþróttir. Eftir stækkun verður lóð Egilshallar 94.000 m2, ný aðkoma verður að höllinni þar sem hringtorg verður gert á Víkurvegi með nýrri aðkomu og  bílastæðum fjölgað í 2.000. Fyrsta skóflustunga framkvæmdanna verður tekin fimmtudaginn 9. mars og er áætlað að öllum þessum framkvæmdum verði lokið fyrir áramót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×