Innlent

Fiskútflytjendur búa sig undir aukna eftirspurn

MYND/GVA

Fiskútflytjendur búa sig allt eins undir stóraukna eftirspurn eftir fiski á Evrópumörkuðum, eftir að fuglaflensa greindist í alifuglabúi í Frakklandi um helgina.

Það urðu viss þáttaskil því hingað til hafði fuglaflensan einskorðast við villta fugla í Evrópu en alifuglar taldir hættulausir, sérstaklega eftir að útgöngubann var víða sett á þá til að þeir kæmust ekki í tæri við villta fugla.

Talsmenn íslensku fisksölufyrirtækjanna hafa greint söluaukningu upp á síðkastið þótt þeir vilji ekki fullyrða að það megi rekja til ótta fólks við fuglaflensuna. Eftir tilvikið í Fakklandi fylgist smásalar og heildsalar í fiski þó óvenju grannt með framvindu mála og búi sig undir aukna eftirspurn.

Norskir laxeldismenn sjá líka mikið sóknarfæri inn á Evrópumarkaðinn vegna þessa. Intra Fish greinir til dæmis frá því að kjúklinganeysla hafi dregist saman um tugi prósenta á Ítalíu vegna ótta fólks við flensusmit úr alifuglum og þess í stað aukist meðal annars fiskneysla.

Þess sjást þegar merki því þrátt fyrir að Rússar, sem voru stærstu kaupendur á norskum eldislaxi, hafi lokað fyrir innflutning á honum frá áramótum hefur útflutningur á laxi frá Noregi aukist vegna aukinnar eftirspurnar niður um alla Evrópu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×