Innlent

Hvalveiði þjóðir að ná yfirhöndinni

Umhverfisráðherra Ástralíu segir hvalveiðiþjóðir vera að ná yfirhöndinni í Alþjóðahvalveiðiráðinu. Skrifstofustjóri alþjóðaskrifstofu sjávarútvegsráðuneytisins segir þetta herbragð hjá ráðherranum.

Ráðherrann bendir á að á síðasta fundi ráðsins hafi hvalveiðiþjóðir verið búnar að tryggja sér meirihluta atkvæða, en ekki hafi allar þjóðirnar mætt til fundarins þegar til kom.

Stefán Ásmundsson skrifstofustjóri alþjóðaskrifstofu sjávarútvegsráðuneytisins, sem farið hefur fyrir íslensku sendinefndinni á fundum Alþjóðahvalveiðiráðsins, segir þetta vera gamalkunnugt herbragð hjá ráðherranum, enda vinnufundur um næstu mánaðamót innan ráðsins. Hann segir að mörg þróunarríki hlynnt því að nýta þær auðlindir sem bjóðist, en þau ríki sem ekki hafi greitt árgjald til ráðsins fái ekki að greiða atkvæði. Og hjá þróunarríkjunum brenni við að gjaldið sé ekki greitt. Stefán telur að fylkingarnar innan ráðsins, með og á móti hvalveiðum, séu álíka stórar, en þrjá fjórðu hluta atkvæða þurfi til að knýja fram breytingar. Ársfundur Alþjóðahvalveiðiráðsins verður haldinn í júní.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×