Erlent

Flugbanni aflétt vegna hátíðahalda

Tæplega sextíu ára flugbanni á milli Taívans og Kína hefur verið aflétt til að auðvelda þeim Taívönum sem búa í Kína að skreppa heim yfir hátíðirnar, en Kínverjar fagna nýju ári um þessar mundir.

Þetta er reyndar ekki í fyrsta sinn sem Tævanar aflétta banninu vegna nýárshátíðanna því þeir höfðu einnig þennan háttinn á í fyrra og árið 2003. Fram til þessa hefur það hins vegar aðeins verið ætlað kaupsýslumönnum sem eru við störf í Kína og því á almenningur nú kost á að fljúga á milli landanna í fyrsta sinn í tæp sextíu ár, en banninu var komið á að lokinni borgarastyrjöld Kínverja og Tævana árið 1949.

Meira en 300 þúsund Tævanar sem ýmist búa, starfa eða stunda nám í Kína snúa heim árlega á þessum árstíma. Gert er ráð fyrir sjötíu og tveimur áætlanaferðum á tímabilinu, sem stendur til sjöunda febrúar, en flugferðin tekur um tvær og hálfa klukkustund. Það var China Airlines sem fór fyrstu ferðina í morgun en það er eitt af tólf flugfélögum sem flytja mun ferðalanganna á milli á meðan bannið liggur niðri næstu daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×