Erlent

Vilja að deilan fari fyrir Öryggisráðið

Bretar, Frakkar og Þjóðverjar hafa formlega farið fram á að deilan um kjarnorkuáætlun Írana verði lögð fyrir Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Alls óvíst er að það verði samþykkt hjá Alþjóða kjarnorkumálastofnuninni.

Þjóðirnar þrjár hafa sent Alþjóða kjarnorkumálastofnuninni drög að ályktun, þar sem óskað er eftir því að Öryggisráð Sameinuðu Þjóðanna fjalli um kjarnorkuvopnaáætlun Írana. Háttsettir embættismenn innan Evrópusambandsins segja ályktunina hófstillta og að í henni sé ekki gert ráð fyrir efnahagsþvingunum að svo stöddu.

Gert er ráð fyrir að á neyðarfundi Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar í byrjun febrúar verði greidd atkvæði um tillöguna. Þrjátíu og fimm þjóðir hafa atkvæðisrétt og til að málið fari fyrir öryggisráðið þurfa fulltrúar tuttugu og fjögurra þjóða að samþykkja ályktunina. Fulltrúar Bandaríkjanna og stærstu ríkja Evrópu eru sannfærðir um að þessi meirihluti náist, en enn hefur ekki tekist að fá Rússa og Kínverja í hóp þeirra þjóða sem vilja hætta samningaviðræðum við Íran og senda málið til Öryggisráðsins.

Ef samþykki fæst á fundinum í byrjun febrúar ætla Íranar að hætta öllu samstarfi við Alþjóða kjarnorkumálastofnunina. Það myndi einfaldlega þýða að enn minna yrði vitað um áætlanir þeirra en nú, og þá fyrst væri málið komið í algjöran hnút.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×