Erlent

Dynjandi úrkoma og aurskriður í fjöllum Kasmírs

Dynjandi úrkoma og aurskriður hafa lamað hjálparstarf í fjöllum Kasmír-héraðs síðan um helgina. Eftirlifendur jarðskálftans sem hafast við hátt uppi í fjöllum eru algerlega afskiptir.



Sameinuðu þjóðirnar hafa nú keppst við að koma hjálpargögnum á skjálftasvæðin í meira en þrjá mánuði. Bærilega hefur gengið á ákveðnum svæðum en þær tugþúsundir sem búa í yfir fimmtán hundruð metra hæð eru hins vegar mjög afskiptar og hefur ekki tekist að koma neinum gögnum upp í fjöllin í þrjá daga því að flug hefur legið niðri vegna veðurs.



Fyrir fólk eins og Salima Bibi, sem hefst við í tjöldum í nístingskulda lengst uppi í fjöllunum, þýðir þetta bara eitt. Slæmar aðstæður verða enn verri: „Þetta úrhelli magnar upp kuldann. Börnin geta ekki sest niður vegna hans. Við búum við árbakka því við eigum ekkert heimili lengur."



Jarðfræðistofnun Pakistans spáir mikilli snjókomu næstu daga og varar við hættu á snjóflóðum ofan á allt annað. Það gæti valdið enn frekari töfum á hjálparstarfi. Það gerir svo illt verra að úrkoman veldur líka aurskriðum sem hafa teppt helstu samgönguæðar á landi.



Mushtaq Awan, yfirverkfræðingur í pakistanska hluta Kasmírs, segir sprungur hafa myndast víðs vegar í jörðinni. Vatn safnist saman í þessum sprungum vegna rigninganna og þegar kvöldi breytist vatnið í snjó sem auki þrýsting. Af þeim sökum séu aurskriður afar tíðar.



Eftir að úrkomunni slotar mun taka minnst þrjá daga að hreinsa vegina upp í fjöllin.



Þó að enn sé ekki hægt að rekja nema nokkur dauðsföll beint til kuldanna í Pakistan er ljóst að margir muna ekki halda út við þessar aðstæður ef kuldarnir halda áfram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×