Erlent

Óholl fæða fer illa í lundina

MYND/Vísir

Óholl fæða fer illa í lundina á fólki. Ný bresk skýrsla bendir til að aukið þunglyndi og minnisleysi megi að nokkru rekja til breyttra matarvenja á síðustu áratugum.

Allir vita að óholl fæða kemur niður á líkamlegu atgervi. Það ætti í sjálfu sér ekki að koma neinum á óvart að áhrifin ná auðvitað líka til heilans og allrar þeirrar starfsemi sem þar fer fram. Enn eina vísbendinguna í þessa átt er að finna í niðurstöðum nýrrar skýrslu frá geðheilbrigðisstofnun í Bretlandi. Þar kemur fram sterk fylgni á milli depurðar og minnisleysis annars vegar og óhollrar fæðu hins vegar.

Það eru einkum grænmetið og fiskurinn sem hafa farið halloka í heimi hraðans, þar sem fólk hefur ekki lengur tíma til að útbúa staðgóðar máltíðir. Það er afar slæmt því einmitt í þessum fæðutegundum er að finna mikilvæg vítamín og hollar fitusýrur, sem eru heilanum lífsnauðsynleg.

Höfundar skýrslunnar segja að stjórnvöld í Bretlandi verði að grípa strax í taumana og leggjast í allsherjar breytingu á skattlagningu matvæla og auka fræðslu fyrir almenning.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×