Innlent

Vilja útrýma hugmyndinni um brjálaða vísindamanninn

MYND/Hari

Gera á út af við hugmyndina um brjálaða vísindamanninn og auka áhuga ungs fólks á raungreinanámi með nýju skemmti- og fræðasetri á sviði vísinda og tækni sem fyrirhugað er að setja á fót. Samningur um undirbúningsfélag fyrir verkefnið var undirritaður í dag.

Það voru Háskóli Íslands, Orkuveita Reykjavíkur og Kennaraháskóli Íslands sem undirrituðu samninginn en fulltrúar frá þessum þremur aðilum munu starfa í undirbúningsfélaginu. Markmiðið er að gæða áhuga ungs fólks á raungreinum en nokkuð hefur verið kvartað undan lítilli aðsókn í nám í þeim greinum við háskóla landsins.

Ari Ólafsson, dósent við raunvísindadeild segir ímyndina af vísindunum bágborna og börn séu ekki gömul þegar þau kynnist hugmyndinnni um vonda vísindamanninn í barnaefni sjónvarpsins. Á þessari ímynd sé hamrað. Þessu vilji menn breyta þannig að börnin finni bæði ánægju og næringu fyrir hugann í viðfangsefnum vísindanna.

Áætlað er að undirbúningsfélagið starfi í eitt ár og eru verkefni þess að skipuleggja starfsemi vísindasetursins, gera þjónustusamninga við ríki og sveitarfélög ásamt því að safna fé frá fjárfestum, en setrið verður einhvers konar sjálfseignarfélag.

Vísindasetrið hefur fengið vinnuheitið Tilraunahúsið en samsvarandi hús er að finna í flestum stærri erlendis. Ekki hefur verið ákveðið hvar það verður eða hvenær það tekur til starfa. Það mun ráðast af því hversu vel gengur að afla fjár fyrir verkefnið en byrjunarupphæð fyrir það hleypur á nokkur hundruð milljónum króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×