Innlent

Frumburðurinn 300 þúsundasti landsmaðurinn

Íbúar Íslands urðu 300 þúsund í dag. Það var lítill drengur úr Reykjanesbæ sem sem rauf 300 þúsunda múrinn en hann var tekinn með keisaraskurði í morgun.

300 þúsundasti Íslenidngurinn fæddist á fæðingardeild Landsdspítalans fyrir klukkan sjö í morgun. Sá sem fékk þessa stóru tölu er lítill, fjórtán marka snáði.

Foreldrar drengsins heita Erla María Andrésdóttir og Haraldur Arnarson og er þetta þeirra fyrsta barn. Móðurafi drengsins var að vonum ánægður þegar NFS hitti á hann í dag.

"Þetta er eina afabarnið og fyrsta. Þetta er mjög merkilegt. Ég á fimm ára snáða sjálfur og svo er systir (móðurinnar) ellefu ára. Þetta er öðru vísi en ég var hérna í nótt með henni," segir Andrés Hjaltason móðurafi sem fannst alveg ótrúlegt, en skemmtilegt, að fyrsta afabarnið skyldi verða 300 þúsundasti landsmaðurinn.

Talan 300 þúsund miðast við þá sem hafa lögheimili á Íslandi og því teljast þeir því sem hafa atvinnuleyfi í lengri eða skemmri tíma með. Á heimasíðu hagstofunnar segir það hafi þótt við hæfi að það barn, sem fæddist hér á landi sem næst þeim tíma sem talan náðist, teljist þrjú hundruð þúsundasti íbúi landsins.

Ljóst er að íslenskir ríkisborgarar eru löngu orðinir þrjú hundruð þúsund en ætla má að á milli þrjátíu til fjörtíu þúsund íslenskir ríkisborgarar búi erlendis. Engin nákvæm tala er til um það. Á móti búa um það bil tólf þúsund erlendir ríkisborgarar á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×