Innlent

Bjóða biskup fræðslu um málefni samkynhneigðra.

Í bréfinu lýsa Samtökin ´78 furðu sinni og vonbrigðum á ummælum biskups um samkynhneigð og hjónaband í nýjárspredikun hans og fréttaviðtali á NFS. Í nýárspredikun sinni hvatti biskup Alþingismenn til að bíða með að samþykkja breytingar á hjúskaparlögum sem heimili trúfélögum að gefa saman samkynhneigða og í viðtali sagði hann hjónabandið eiga það inni hjá þjóðinni að því sé ekki kastað á sorphaugana.

Í bréfinu segir formaður samtakanna, Hrafnhildur Gunnarsdóttir, að ummælin lýsi fordómum og fáfræði. Mörgum hafi sárnað þessi orð og þau valdið angist víða þar sem biskup sé almennt talinn mikilvægur leiðtogi þjóðarinnar í trúarefnum. Orðin sé ekki hægt að skilja á annan veg en að biskup telji fjölskyldulíf samkynhneigðra eiga heima á sorphaugunum og með þessum rétti verði heilagt hjónaband gagnkynhneigðra saurgað og ert ómerkt.

Í bréfinu segir að biskup kjósi að setja þetta mál fram þannig að tillagan þvingi þjóðkirkjuna til löggiltrar vígslu á samböndu samkynhneigðra en svo sé alls ekki. Þjóðkirkjunni sé algerlega í sjálfsvald sett hvort og hvenær hún stígi það skref, en aðrir söfnuðir og trúfélög, sem þegar hafi lýst vilja sínum til að gefa saman samkynhenigð pör, hafi þann rétt.

Stjórn Samtakanna ´78 harmar að nýja árið skyldi ganga í garð með slíkum stóryrðum og leiðindum og ályktar að biskup gæti haft af því gagn að kynna þér menningu og fjölskyldulíf samkynhneigðra áður en fleiri gífuryrði verði látin falla í þessum dúr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×