Innlent

Forsætisráðherra ræðir við formenn stjórnmálaflokka um breytingar á eftirlaunalögunum

Formaður Samfylkingarinnar segir að boltinn sé nú aftur í Forsætisráðuneytinu um hvernig standa eigi að því að breyta lögunum þannig að fyrrverandi ráðherrar sem gegna hálaunastöðum hjá hinu opinbera geti ekki jafnhliða þegið eftirlaun sem ráðherrar.

Forsætisráðherra skipaði nefnd lögfræðinga í fyrravetur til að kanna hvaða leiðir væru færar í því skyni að breyta lögunum. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að erfitt gæti reynst að taka réttindi af þeim sem þegar þæðu eftirlaun samkvæmt gildandi lögum. Það væri hinsvegar hægðarleikur að breyta lögum á þann veg að sporgöngumennirnir hefðu ekki þennan möguleika til tvítöku. Lögfræðiálitið fór síðan til kynningar í forsætisnefnd alþingis sem lagði fram eftirlaunafrumvarpið á sínum tíma. Forsætisráðherra ræddi svo tvívegis við alla formenn stjórnmálaflokka nú í desember til að kanna vilja til breytinga. Björn Ingi Hrafnsson aðstoðarmaður forsætisráðherra segir að ekki hafi náðst sátt um hvernig ætti að breyta lögunum. Forsætisráðherra hafi lagt fram ákveðnar hugmyndir sem ekki hafi fengið hljómgrunn hjá öllum flokkum. Þær hugmyndir séu trúnaðarmál. Formenn flokkanna þurfi að taka afstöðu til breytinganna ekki sé hægt að breyta nema í góðu samkomulagi allra flokka. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segist líta svo á að boltinn sé hjá ráðherra og málið verði tekið upp þegar þing kemur aftur saman. Hún segist fylgjandi því að alfarið verði snúið til baka og réttindin afnumin hjá þeim sem þegar þiggja eftirlaun ásamt því að vera í hálaunastöðum. Málið sé vissulega umdeilt meðal lögmanna en hún hallist frekar á sveif með þeim sem telji að hægt sé að snúa til baka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×