Innlent

Ólíklegt að kveikt verði í brennum í kvöld

Frá brennu við Rauðavatn á gamlárskvöld.
Frá brennu við Rauðavatn á gamlárskvöld. MYND/Heiða Helgadóttir

Ólíklegt er talið að kveikt verði í þrettándabrennum á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurlandi í kvöld vegna yfirvofandi storms á suðvesturhorninu. Þegar hefur verið ákveðið að fresta þrettándagleði í Grafarvogi en endanleg ákvörðun um aðra staði verður tekin eftir hádegi.

Fyrirhugað var að halda brennur á átta stöðum á höfuðborgarsvæðinu í kvöld, á þremur stöðum í Reykjavík og ein í Hafnarfirði, Kópavogi, Mosfellsbæ, á Álftanesi og Seltjarnarnesi. Þegar hefur verið ákveðið að fresta þrettándagleði og brennu í Grafarvogi og búist er við að eins verði með aðra staði á höfuðborgarsvæðinu.Haldinn verður fundur klukkan eitt þar sem lögregla, slökkvilið, brennustjórar á stöðunum átta og fulltrúar frá Veðurstofunni ákveða hvort brennurnar verði blásnar af.

Á Selfossi stóð til að halda þrettándagleði með tilheyrandi brennu og flugeldasýningu. Þar er einnig ólíklegt að þrettándanum verði fagnað en endanleg ákvörðun þar um verður tekin klukkan þrjú í dag. Hins vegar er búist við að kveikt verði í brennum bæði á Ísafirði og Egilsstöðum þar sem veðurhamurinn gengur ekki yfir þar fyrr en í nótt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×