Innlent

Ósætti vegna hugmynda um breyttan miðbæ Garðabæjar

Garðabær
Garðabær MYND/Vísir

Hugmyndir um breyttan miðbæ Garðabæjar eru slæmar að mati bæjarfulltrúa Framsóknarflokksins í bænum. Hann vill að samningi við fyrirtækið sem unnið hefur að þeim verði sagt upp. Oddviti meirihlutans segir rétt að gefa þeim vinnufrið.

Upphaflega var efnt til samkeppni milli þriggja þróunarfyrirtækja um að koma með hugmyndir að uppbyggingu í miðbæ Garðabæjar, það er frá Garðatorgi niður að Hafnarfjarðarvegi. Matsnefnd sem skipuð var bæði fulltrúum minnihlutans og meirihlutans í Garðabæ ákvað að fela fyrirtækinu Klasa það hlutverk að koma með hugmyndir að nýju miðbæ. Einar Sveinbjörnsson bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins er ósáttur við vinnu fyrirtækisins sem meðal annars hefur kannað hvort hægt væri að flytja lyfjafyrirtækið Vistor af svæðinu. Hann segir þær hugmyndir sem nú séu í gangi hjá fyrirtækinu fela það í sér að miðbærinn verður slitinn í tvennt. Hann hefur því lagt fram tillögu um að slíta samstarfi við fyrirtækið. Hann segir kostnað við verkefnið nú þegar orðinn mikinn.

Erling Ásgeirsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ, segir tillögu Einars um að slíta samtarfinu ekki tímabæra. Hann telur eðlilegt að fyrirtækið fái vinnufrið en það skilar hugmyndum til bæjaryfirvalda í september. Erling segir aðeins um hugmyndavinnu að ræða en ekki endanlegt skipulag enda verði ákvörðun um það tekin af bæjaryfirvöldum. Fyrirtækið hafi unnið vel í því að kynna sér hugmyndir íbúa á svæðinu og það sé mikill ávinningur. Tillagan bíður nú eftir afgreiðslu bæjarráðs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×