Innlent

Heyskapur hafinn undir Eyjafjöllum

Sláttur hófst undir Eyjafjöllum í dag og má telja víst að bændur þar séu þeir fyrstu á landinu til að hefja heyskap þetta sumarið. Þeir segja grasið kraftmikið og gott og svo vel sprottið að það sé byrjað að leggjast.

Feðgarnir á Þorvaldseyri, þeir Ólafur Eggertsson og Páll sonur hans, hófu slátt snemma í morgun og vitum við ekki um neinn bónda sem byrjaði á undan þeim. Ólafur stýrði sláttuvélinni með tvo afastráka með sér en Páll fylgdi svo á eftir og sneri.

Á öðrum bæ skammt frá, Ásólfsskála, hófst sláttur undir hádegi en það er hald margra að það sé nokkurt metnaðarmál milli bænda undir Eyjafjöllum hver nái að verða fyrstur til að hefja slátt.

Þrátt fyrir tveggja vikna kuldakast með þurrkatíð í seinnhluta maímánaðar segjast bændur ekki vera seinna ferðinni nú miðað við undanfarin sumur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×