Innlent

Fjórða langreyðurin skorin í Hvalfirði í dag

Yfir tvöhundruð manns eru nú í hvalstöðinni í Hvalfirði en þar er hvalskurður að hefjast í hádeginu. Fjórða langreyðin, sem veiðst hefur á vertíðinni, var dregin þar á land klukkan hálftólf.

Hvalbáturinn Hvalur 9 sást sigla inn í Hvalfjörð upp úr klukkan tíu í morgun með fjórðu langreyðina, sem veiðst hefur á þessari vertíð frá því atvinnuveiðar voru leyfðar á ný. Hvalbáturinn lagðist að bryggju í hvalstöðinni klukkan rúmlega ellefu og um fimmtán mínútum síðar var hvalurinn dreginn á land. Hann er álíka stór og þeir fyrri, um 20 metra langur, og veiddist á sömu slóðum, um 140 mílur vestur af Snæfellsnesi. Vísindamenn eru þessa stundina að ljúka sýnatöku og mælingum á hvalnum og var áætlað að byrjað yrði að flensa hvalinn nú upp úr klukkan tólf. Áformað er að Hvalur 9 haldi aftur til veiða síðar í dag að leita að fimmta hvalnum af þeim níu sem leyft er að veiða á þessari vertíð, en henni lýkur formlega 31. ágúst á næsta ári. Með sama áframhaldi styttist því í að hvalbáturinn klári kvótann því hann á nú aðeins fimm hvali eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×