Erlent

Íraksstríði mótmælt

Bandarískir  hermenn í Samarra.
Bandarískir hermenn í Samarra. MYND/AP

Þrjú ár voru í gær liðin frá því herlið undir forystu Bandaríkjamanna réðst inn í Írak. Mótmæli mörkuðu það afmæli víða um heim en andstæðingar stríðsins söfnuðust saman til að mótmæla stríðinu og krefjast þess að látið verði af hernaðaraðgerðum í Írak tafarlaust.

Með innrásinni átti að frelsa Íraka undan oki einræðisherrans Saddams Husseins en flestum íbúum landsins var efst í huga sársauki og sorg þegar tímamótanna var minnst í gær.

Síðustu þrjú ár hafa einkennst af miklum átökum í landinu. Iyad Allawi, fyrrverandi forsætisráðherra Íraks, sagði í gær að borgarastyrjöld væri hafin í landinu og varaði við því að ef ekki yrði gripið í taumana fljótlega breiðist vítahringur ofbeldis út um Mið-Austurlönd. George Bush, Bandaríkjaforseti, notaði hins vegar tilefnið til að lofa frammistöðu hermanna í Írak og sagði sigur í námd.

Einhverjar umfangsmestu hernaðaraðgerðir Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra frá innrásinni hófust með loftárásum á borgina Samarra í síðustu viku. Aðgerðirnar hafa vakið mikla reiði meðal íbúa en sunní-múslimar eru í miklum meirihluta á svæðinu.

Bílalest frá Rauða hálfmánanum í Írak kom með hjálpargögn til íbúa í úthverfi borgarinnar seint í gær. Talsmaður samtakanna hafði áður sagt að bandarískir hermenn kæmi í veg fyrir að hjálpargögn bærust íbúum og bæru fyrir sig að það væri af öryggisástæðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×