Erlent

Blásýra lak í Saxelfi.

MYND/AP

Vélabilun í efnaverksmiðju í Tékklandi er sögð hafa valdið því að töluvert af blásýru lak í ánna Saxelfi fyrir rúmri viku. Tékkar hafa varað Þjóðverja við mögulegri hættu af völdum blásýrunnar.

Mörg tonn af fiski hafa drepist í ánni en ekki liggur fyrir á þessari stundu hvað tjónið er mikið fyrir fiskimenn á svæðinu. Talið er að eitrað vatn flæði nú með ánni tæpa áttatíu kílómetra frá Draslovka-efnaverksmiðjunni þaðan sem eitrið lak. Fyrirtækið sendi frá sér yfirlýsingu fyrr í vikunni þar sem vélabilun er kennt um en engar frekari skýringar eða upplýsingar eru gefnar.

Sérfræðingar segja þetta það alvarlegasta slys sem orðið hafi í efnaverksmiðju í Tékklandi síðari ár en þó sé ástæðulaust að hafa áhyggjur af áhrifum á fólk og dýr önnur en fiska. Talsmaður tékkneska umhverfiseftirlitsins segir eitrið ekki lengur eins þétt í vatninu og fyrst eftir slysið. Blásýran sem hafi lekið leysist ekki upp í vatni og eyðist nú hægt og bítandi um leið og hún komist í tæri við súrefni.

Tékkar hafa þegar varað yfirvöld í Þýskalandi við mögulegri hættu af völdum blásýrunnar. Drykkjarvatnið í þýsku borginni Dresden er unnið úr ánni sem rennur þar í gegn. Talsmaður efnaverksmiðjunnar segir blásýrumagn í vatninu yrði komið niður fyrir ásættanleg mörk þegar eitrað vatn tæki að renna um Þýskaland á næsta sólahring. Blásýra er eitrað efni sem er meðal annars notað er í vefnaði og papírs- og plast framleiðslu. Töluvert af blásýru lak frá gullbræðslu í Rúmeníu árið 2000 og milljónir tonna af fiski drápust í Dóná og Tisza í Rúmeníu og Ungverjalandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×