Innlent

Erfiðara að selja íbúðir í höfuðborginni

MYND/Vilhelm

Lengri tíma tekur að selja íbúðir á höfuðborgarsvæðinu en áður og fleiri nýjar íbúðir standa auðar. Greiningadeild Glitnis spáir fimm til tíu prósenta lækkun að nafnvirði á húsnæðisverði á næstu tólf til tuttugu og fjórum mánuðinum.

Ef hins vegar verðbólga verður átta prósent eins og spáð hefur verið þá þýðir þetta tólf til þrettán prósenta lækkun að raunvirði á fasteignaverði á næstu tólf mánuðunum. Björn Þorri Vigfússon, formaður Félags fasteignasala, segir fasteignasala þegar farna að finna fyrir kólnun á markaði.

Einstaklingar hafa takmarkaðri aðgang að lánsfjármagni þar sem bankarnir hafa dregið úr útlánum. Þetta hafa bankarnir gert vegna þess efnahagsumhverfis sem nú er. Minna lánsfjármagn, minnkandi kaupmáttur og mikið framboð af nýju húsnæði sem streymir inn á húsnæðismarkaðinn hefur þau áhrif að eftirspurn eftir húsnæði minnkar.

Björn Þorri segir fasteignasala ekki hafa orðið vara við neinar lækkanir en hins vegar finni þeir fyrir ákveðinni sölutregði. Þeir finna mest fyrir þessu á svæðum þar sem mikið er af nýbyggingum og í úthverfum en minna í grónum hverfum nálægt miðbænum.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×