Innlent

Leiðréttingu á réttarstöðu samkynhneigðra loks náð

frá Gay Pride
MYND/Vilhelm Gunnarsson

Hvergi í heiminum njóta samkynhneigðir eins mikilla lagalegra réttinda og verndar og á Íslandi. Ný lög um réttarstöðu samkynhneigðra sem samþykkt voru í byrjun mánaðarins taka gildi í dag. Af því tilefni efna Samtökin '78 til hátíðarsamkomu í Listasafni Reykjavíkur í dag.

Mannréttindabarátta homma og lesbía hefur ekki alltaf verið dans á rósum en með gildistöku nýju laganna í dag mun Ísland skipa sér í hóp þeirra ríkja sem hvað lengst eru komin í leiðréttingu á réttarstöðu samkynhneigðra.

Vanalega taka ný lög gildi á Íslandi fyrsta dag mánaðar en farið var fram á það við stjórnvöld að þessi lög tækju gildi í dag og fyrir því er gild ástæða en upphaf réttindabaráttu samkynhneigðra má rekja til atburða sem urðu þennan dag, 27. júní fyrir 36 árum í Stonewall.

Þennan dag, 1969, var verið að jarðsetja Judy Garland sem var í miklu uppáhaldi hjá hommum og lesbíum á þeim tíma og safnaðist fólk saman á skemmtistaðnum Stonewall Inn í New York og spiluðu söngvana hennar. Þegar lögreglan gerði svo eina af sínum alkunnu rassíum á staðinn og handtóku þrjár dragdrottningar, tvo barþjóna, einn Kúbana og eina lesbíu en lét aðra í friði öskraði einhver: Af hverju látið þið fara svona með ykkur? Við það varð fjandinn laus. Upp blossuðu mikil mótmæli sem stóðu alla helgina og er talið að um 4000 manns hafi tekið þátt í þeim.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar í réttindabaráttu samkynhneigðra síðan þá og með nýju lögunum sem taka gildi á morgun má segja að hér á landi standi samkynhneigðir nánast jafnfætis gagnhneigðum, í það minnsta lagalega. Og því ætla samtökin 78 að fagna með hátiðarhöldum í Listasafni Reykjavíkur og hefjast hátíðarhöldin kl. 17






Fleiri fréttir

Sjá meira


×