Innlent

Engin viðbrögð hérlendis ákveðin

MYND/Reuters

Engin viðbrögð af hálfu íslenskra heilbrigðisyfirvalda hafa verið ákveðin í ljósi nýjustu frétta af fugleflensuveirunni. Flensan breiðist nú eins og eldur í sinu um Tyrkland og hún nálgast Vestur-Evrópu óðfluga.

Í síðustu viku létust þrjú systkin af völdum fuglaflensunnar í austurhluta Tyrklands. Á annan tug manna hafa verið lagðir inn á sjúkrahús í landinu í dag, smitaðir af flensunni að því er talið er. Staðfest hefur verið að að minnsta kosti fimm þeirra séu með hættulegasta afbrigði veirunnar, hið svokallaða H5N1. Haraldur Briem sóttvarnarlæknir segir alveg ljóst að veiran sé að færast í aukana. Það sem komi helst á óvart sé að sjá þessi tilfelli í mönnum í Tyrklandi. Aðspurður hvort íslensk heilbrigðisyfirvöld muni bregðast við hinum nýju tíðindum á einhvern hátt segir Haraldur svo ekki vera.

Norðurlöndin hafa undanfarið verið að kanna möguleikann á því að koma á laggirnar sameiginlegri bóluefnisverksmiðju gegn inflúensu. Haraldur segir enga endanlega ákvörðun hafa verið tekna um það en það fáist vonandi botn í málið fyrir vorið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×