Innlent

Innflutningur jókst um þriðjung á síðasta ári

Innflutningur á bílum hefur sjaldan eða aldrei verið meiri en á síðasta ári.
Innflutningur á bílum hefur sjaldan eða aldrei verið meiri en á síðasta ári. MYND/GVA

Innflutningur til landsins jókst um þriðjung á nýliðnu ári miðað við árið 2004. Ástæðuna má að miklu leyti rekja til stóriðjuframkvæmda og stóraukins bílainnflutnings.

Heildarinnflutningur fyrstu ellefu mánuði síðasta árs nam 262 milljörðum króna samkvæmt tölum sem birtar voru í vefriti fjármálaráðuneytisins í morgun. Ef bráðabirgðamati desembermánaðar er bætt við verður heildarinnflutningur árið 2005 í kringum 285 milljarða, og eru þá skip og flugvélar meðtaldar. Ef bráðabirgðatölur reynast réttar voru fluttar inn mat- og drykkjarvörur fyrir tæplega 20 milljarða króna, neysluvörur fyrir um 47 milljarða, hrá- og rekstrarvörur fyrir um 69 milljarða, eldsneyti fyrir rúmlega 27 milljarða króna, fjárfestingarvörur fyrir tæpa 67 milljarða og flutningatæki fyrir um 53 milljarða króna, þar af nam innflutningur bifreiða um 26 milljörðum.

Innflutningur á nýliðnu ári, ef skip og flugvélar eru ekki meðtaldar, nam 278 milljörðum króna sem er þriðjungs aukning frá árinu á undan. Samkvæmt fjármálaráðuneytinu eru helstu ástæður aukningarinnar innflutningur á fjárfestingarvörum sem að stórum hluta er tilkominn af stóriðjuframkvæmdum. Verðhækkanir eldsneytis hafa einnig umtalsverð áhrif sem og mikil aukning í einkaneyslu. Þá er stóraukinn innflutningur á farartækjum stór áhrifaþáttur að sögn ráðuneytisins en innflutningur á bílum hefur sjaldan eða aldrei verið meiri en á síðasta ári.

Fjármálaráðuneytið vinnur nú að nýrri þjóðhagsspá sem birt verður í lok janúar.

Lesa má fréttina í vefriti fjármálaráðuneytisins í heild hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×