Lífið

Ólafur og Dagur Kári sættast

Á heimasíðu Ólafs Jóhannessonar eru hann og Dagur Kári sagðir sættast eftir áralangt stríð sem er reyndar uppspuni frá rótum.
Á heimasíðu Ólafs Jóhannessonar eru hann og Dagur Kári sagðir sættast eftir áralangt stríð sem er reyndar uppspuni frá rótum.

Á heimasíðu kvikmyndafyrirtækisins Poppoli er að finna nokkuð undarlegt viðtal við kvikmyndaleikstjóranna Dag Kára Pétursson og Ólaf Jóhannesson.

Við fyrstu sýn mætti ætla að það hefði andað köldu á milli þeirra félaga en þeir hefðu ákveðið að grafa stríðsöxina. „Þetta er þekkt mál. Ég hef alltaf verið á móti stefnu hans í kvikmyndum og aldrei skilið af hverju hann hefur fengið öll verðlaun en við engin,“ útskýrir Ólafur þegar Fréttablaðið innti hann eftir sáttarumleitunum þeirra á milli. „Við höfum unnið mikið saman en rifist eins og hundur og köttur þess á milli,“ heldur Ólafur áfram.

Þessi meinti ágreiningur kvikmyndaleikstjóranna kemur eflaust mörgum spánskt fyrir sjónir enda kemur það á daginn við nánari eftirgrennslan að viðtalið er skáldskapur frá upphafi til enda. Fjöldi kvikmynda eru nefndar á nafn sem aldrei hafa verið gerðar og ljóst að vinskapur þeirra á milli hefur aldrei verið meiri.

Dagur Kári aðstoðar Ólaf við gerð handritsins að kvikmyndinni Stóra planið sem byggð er á bók Þorvaldar Þorsteinssonar, Við fótskör meistarans, en það eru þeir Pétur Jóhann Sigfússon og Eggert Þorleifsson sem leika aðalhlutverkin. „Ég réð Dag bara til að hafa stjórn á honum,“ segir Ólafur og hlær að þessu græskulausa gríni félaganna. „Þetta er náttúrlega bara bölvað bull milli tveggja góðra vina,“ bætir Ólafur við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.